Hvað er stofnanasamningur

Kjarasamningar við ríkið eru tvískiptir. Annars vegar eru gerðir miðlægir kjarasamningar sem kveða almennt á um réttindi og skyldur, miðlægar hækkanir o.s.frv. og hins vegar stofnanasamningar.
Stofnanasamningur er samningur milli tiltekins stéttarfélags og fulltrúa ríkisstofnunar. Stofnanasamningur telst hluti miðlægs kjarasamnings og ekki er hægt að segja honum upp sérstaklega.
Tilgangur með stofnanasamningi er að útfæra röðun starfa innan stofnunar í launatöflu samkvæmt kjarasamningi. Er þá horft til þarfa hverrar stofnunnar fyrir sig með tilliti til sérstöðu starfa og verkefna innan hennar.
Í stofnanasamningi er jafnan kveðið á um grunnröðun tiltekinna starfa innan stofnunar í launaflokka. Þá er einnig kveðið á um persónubundna þætti sem gera tiltekna starfsmenn hæfari í starfi, t.d. viðbótarmenntun sem nýtist í starfi og starfsreynsla, og hvernig þeir þættir koma til hækkunar um ýmist launaflokka eða launaþrep. Enn fremur er jafnan kveðið á um tímabundna þætti, t.d. viðbótarábyrgð og/eða álag vegna sérstakra verkefna, og áhrif þeirra þátta á röðun í launatöflu.


Fjallað er um stofnanasamninga í 11. kafla og í fylgiskjali 1 í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við ríkið.
Er kominn tími á nýjan stofnanasamning?
Heimilt er að semja um nýjan stofnanasamning þegar eldri samningur er fallinn úr gildi. Einnig er heimilt að taka upp ákvæði stofnanasamnings þegar breyting verður á miðlægum kjarasamningi og ef breyting verður á umfangi, hlutverki eða starfsemi stofnunar eða tiltekins hóps innan stofnunar.


Verið getur að stofnanasamningur sé runninn úr gildi eða að forsendur séu það breyttar að þörf sé að endurnýja gildandi stofnanasamning. Það getur gerst t.d. þegar nýr kjarasamningur er samþykktur og stofnanasamningur þykir ekki endurspegla réttindi starfsmanna samkvæmt kjarasamningi.
Frumkvæði
Starfsmaður í stéttarfélagi lögfræðinga, yfirmaður hans eða starfsmannastjóri á vinnustað geta haft frumkvæði að endurskoðun stofnanasamnings.

Hægt er að hafa samband við skrifstofu stéttarfélagsins (sl@bhm.is) og starfsmaður þess getur aðstoðað við samningsgerðina og komið að henni með beinum hætti sé þess óskað.
Samninganefndir
Starfsmenn tiltekinnar ríkisstofnunar koma sér saman um hvaða fulltrúar hafi umboð til að semja fyrir þeirra hönd við fulltrúa stofnunarinnar. Starfsmaður stéttarfélagsins getur setið fundina, ýmist sem talsmaður starfsmanna í stéttarfélaginu eða sem áheyrnarfulltrúi.
Viðræður
 um stofnanasamning fara fram undir friðarskyldu, það er, ekki er hægt að beita verkfalli til að þvinga fram breytingar á honum.

Nýlega var settur upp vefur um stofnanasamninga, vefurinn er samstarfsverkefni Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og stéttarfélaga og er liður í fræðsluátaki um gerð og inntak stofnanasamninga. Á vefnum er að finna efni um tilurð og markmið stofnanasamninga sem og efni sem ætti að nýtast gerð og framkvæmd þeirra.

Hér má finna dæmi um nýjan stofnsamning sem gerður var við Sjúkratryggingar Íslands en hann má finna hér.